Samfélagsskýrsla Lambhaga

Lambhagi hefur ávallt kappkostað að vinna að sjálfbærri þróun þar sem leitast er við að vernda náttúruna og skapa heilbrigt vinnuumhverfi. Framleiðsla fyrirtækisins fylgir ströngum gæðaferlum til að tryggja heilbrigða og holla afurð. Í undirbúningi er vinna hjá fyrirtækinu við að greina nánar þætti starfseminnar er tengjast umhverfi, félagslegum þáttum og stjórnarháttum, (UFS þáttum), ásamt áhrifum á markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðin.

Skref áfram í umhverfismálum Lambhaga

Fyrstu niðurstöður úr mælingum um fótspor Lambhaga hafa nú litið dagsins ljós. Samband garðyrkjubænda á Íslandi hefur frá árslokum 2018 haft til reiðu, fyrir þá sem eru innan vébanda félagsins, reiknilíkan. Lambhagi hefur stillt upp sínum niðurstöðum úr rekstrinum í þessa reiknivél (þar er tekið inn kolefnisspor salatsins alveg frá fræi þar til salatið er tilbúið til dreifingar) og er það gefið upp í kg. koldíoxíðs-ígilda á hvert kg. af vöru. Niðurstaðan er: kolefnisspor Lambhaga er 1.11 kg CO2/kg. þann 2. febrúar árið 2022.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu er stefnan tekin á að Lambhagi verði búinn að merkja allar sínar framleiðsluvörur með spori næsta haust. Með þessu skrefi geta neytendur m.a. tekið upplýsta ákvörðun um neystu salats með tilliti til loftslagsmála.

Umhverfis- og sjálfbærnistefna Lambhaga

 • Að öll framleiðsla Lambhaga sé leiðandi í sjálfbærni og umhverfismálum.
 • Að öryggi og heilsa neytenda sé höfð að leiðarljósi.
 • Að framleiðsla fyrirtækisins sé fyrsta því flokks, alveg frá fyrsta skrefi framleiðslu til þess síðasta.
 • Að starfsemi fyrirtækisins sé kolefnisjöfnuð og lágmarka skuli neikvæð umhverfisáhrif m.a. með plöntun trjáa. Jákvæðir verkþættir Lambhaga sem skref í þessa átt eru m.a. eftirfarandi þættir:
 • Í ár 2021 hafði Lambhagi tekið í fóstur 100 hektara af jörðinni Skrapatunga í A- Húnavatnssýslu og hyggst Lambhagi planta þar trjám á komandi árum.
 • Nú þegar hefur Lambhagi plantað að meðaltali 2.000 trjám sl. 40 ár á Lambhagajörðinni í Reykjavík og að Lundi og mun halda áfram því verki.
 • Árlega veitir Lambhagi starfsemi Skógræktarfélagsins styrk sem fer til uppbyggingar á almennri skógrækt í landinu og mun Lambhagi styðja það verkefni til áframhaldandi góðra verka.

Grænn Lambhagi

 • Orkusalan veitti Lambhaga ehf. viðurkenninguna „grænt ljós“ fyrir vistvæna orku árið 2019
 • Við ræktun hjá Lambhaga ehf eru einungis lífrænar varnir notaðar, engin eiturefni.
 • Staðsetning gróðrarstöðvarinnar í Lambhaga og í Lundi er einstök, þar sem örstutt er á ferskmarkað stór-höfuðborgarsvæðisins og sá styrkleiki minnkar kolefnissporin.
 • Gróðrarstöðin notar ekki lengur plastkassa til vöruflutninga heldur pappa sem er endurvinnanlegur.
 • Pappírspottar við ræktun hafa leyst plastpotta af hólmi.
 • Vökvunarvatnið okkar notum við margsinnis eftir hreinsun og efnagreiningu sem við framkvæmum sjálf á báðum ræktunarstöðum.

Markmið Lambhaga 2022

 • Helsta markmið Lambhaga næstu 4 árin verður að koma kolefnisspori fyrirtækisins niður í 0 með því að kolefnisjafna alla starfsemi þess.
 • Að verða fyrsta val neytenda á grænmetismarkaði á Íslandi því umhverfislegur ávinningur er í því að framleiða hér á landi salat og grænmeti í stað innfluttra ferskvara. Auk þess sem íslensk framleiðsla minnkar kolefnisfótspor Íslands.
 • Markmið Lambhaga er að framleiða meiri breidd af gæðavöru á grænmetismarkaði landsins.
 • Gæði á salati tryggjum við með notkun á ómenguðu vatni, hreinu lofti, jarðvegi án allra eiturefna og einstöku hreinlæti. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Sýni ehf koma reglulega til sýnatöku í Lambhaga og með þeirra eftirliti ásamt þjálfuðu starfsfólki okkar, setjum við okkur þær kröfur að bjóða upp á besta og ferskasta salat á íslenskum markaði.
 • Lokamarkmið Lambhaga er endurnýting. Með ábyrgum starfsháttum tryggir Lambhagi gæði framleiðslu sinnar frá uppphafi til enda, þess vegna er það á stefnuskrá okkar að endurnýta ræktunarmoldina og allan afskurð plantna.